Mjög hefur verið vegið að sjálfstætt starfandi aðilum í fjölmiðlum upp á síðkastið og undirritaður ekki í aðstöðu til að meta hvað er rétt og hvað er rangt í þeirri umræðu. Sú sorglega staðreynd er þó fyrir hendi að þeim stöðum sem lent hafa í þessari orrahríð hefur verið/verður lokað.
Það sækir vissulega að manni sú spurning að hvort jafnræðis sé gætt í viðbrögðum gagnvart sjálfstæðum aðilum og opinberum. Það skal játast að þegar málefni Götusmiðjunnar voru í hámæli, „sjúklingar“ fluttir á brott annað og staðnum lokað sökum framkomu forstöðumannsins eins og ítrekað og rækilega var fjallað um í fjölmiðlum var undirrituðum mjög létt að framkvæmdastjóri Sjúkrahúss Suðurlands sýndi ekki af sér óvandaða framkomu, enda hefðu þá væntanlega allir sjúklingar þar verið færðir á brott og sjúkrahúsinu lokað.
Rekstraraðilar eru misjafnir og á það jafnt við um opinbera sem sjálfstætt starfandi aðila. Það að embættismenn stígi fram og lýsi því yfir að tími sjálfstætt starfandi aðila í tilteknum málaflokki sé liðinn er í senn óábyrgt og óviðeigandi. Ef það fé sem veitt var til hinna sjálfstætt starfandi aðila á svo að veita í sambærilegan ríkisrekstur, þá er þetta ferli orðið miklu meira og alvarlegra en að vera óviðeigandi.
Stjórnmála- og embættismenn hafa upp á síðkastið gengið fram af fádæma hörku gagnvart sjálfstætt starfandi aðilum. Má sem dæmi nefna að í nýsamþykktum lögum um málefni fatlaðs fólks er hallað mjög á sjálfstæða rekstraraðila á sama tíma og sveitarfélögunum er réttur spegill og þeim sagt að brosa, meira þurfi þau ekki að gera enda hafi þau eftirlit með sjálfum sér.
Alþingi ber að tryggja íslendingum valfrelsi þar sem sjálfstætt starfandi aðilum er gert jafn hátt undir höfði og þeim opinberu (ríki og sveitarfélög). Á þessu er ekki bara skortur í dag heldur virðist markvisst unnið að því að brjóta niður það sem hefur áunnist.
Menn hafa líkast til gleymt því að opinber rekstur hefur vart yfir sér geislabaug og væru sömu mælikvarðar settir á hann og settir eru á sjálfstætt starfandi aðila – þá væru nú ekki margar opinberar stofnanir starfandi í dag!