Fluttar hafa verið fréttir af því upp á síðkastið að 99% kvenna í Danmörku fari í fóstureyðingu ef rannsókn sýnir að barnið muni fæðast með Downs – heilkenni. Samkvæmt frásögn yfirlæknis kvennadeildar Landspítalans eru þeir teljandi á fingrum annarrar handar sem kjósa að ganga með á Íslandi ef þeir vita að fóstur er með Downs heilkenni.
Það er rétt sem fram hefur komið, að það er mjög umdeilt að fóstur með Downs séu leituð uppi og foreldrum svo boðið upp á „val“ um það hvort það eigi að eyða fóstrinu. Haft er eftir yfirlækni Landsspítala að ríkið sé ekki að leita að neinu, það séu einstaklingarnir/ parið sem á von á barni sem eigi val um fóstureyðingu. Heilbrigðisstarfsfólk veiti aðeins upplýsingar til að fólk geti tekið upplýsta ákvörðun um það hvort það vilji greiningu eða ekki.
Hin „upplýsta ákvörðun“ sem mönnum er svo mikilvæg að sé tekin þegar fóstur er talið með Downs er svo upplýst að það heyrir til algjörrar undantekningar að niðurstaðan sé önnur en sú að láta eyða fóstrinu. Ef samfélagið telur það yfir höfuð siðferðislega rétt að flokka fóstur og í raun draga eina „tegund“ einstaklinga út og segja við verðandi foreldra þitt barn verður örðuvísi en önnur börn, þitt barn er í aukinni hættu á að fá hitt og þetta og þitt barn verður svona og svona. Ef þetta þykir rétt, sem það náttúrulega er alls ekki, er þá ekki rétt að hluti af hinu upplýsta vali sé að hitta einstakling með Downs og foreldra einstaklings með Downs? Margir foreldrar Downs barna eru tilbúnir í slíkt samtal.
Verðandi foreldrar nýta sér oft þann valkost að fá að vita hvort fóstur er drengur eða stúlka. Ef öll fóstur eru „jöfn“ að verðleikum, því eru þá ekki t.d. verðandi foreldrar stúlkna upplýstir um allar þær mögulegu hættur sem stúlkur eru í, að þær séu í meiri hættu en t.d. drengir á að fá hina og þessa sjúkdóma. Svo má auðvitað nefna að við lifum í karlasamfélagi og að möguleikar stúlkna eru mun minni en drengja, að fleiri konur séu yfirleitt á atvinnuleysisskrá, að það séu verulegar líkur á að stúlka verði fyrir kynferðislegri misbeitingu og áfram má telja. Að sjálfsögðu hafa foreldrarnir val, það var aðeins verið að veita upplýsingar! Hversu margir foreldrar stúlkubarna myndu fara í fóstureyðingu og bara „reyna aftur“?
Það má því miður segja að það sé ekki til neinn hópur einstaklinga sem býr við jafn mikla fordóma og einstaklingar með Downs. Það er allavega ekki til neinn annarra hópur sem leitað er að í móðurkviði með það raunverulega markmið að honum sé eytt. Hvað segja tölurnar? Í Danmörk er 99% fóstra með Downs eytt. Í Englandi var 482 fóstrum með Downs eytt árið 2010, þar af voru 10 þar sem móðir var gengin yfir 6 mánuði. Á Íslandi er það þannig að það eru nánast allir sem láta eyða fóstri sé talið að fóstrið sé með Downs. Nákvæmar tölur liggja ekki fyrir hérlendis, allavega ekki fyrir almenning.
Vandamálið er ekki einstaklingar með Downs, vandamálið eru fordómar og siðferði sem ekki á að vera samboðið þroskaðri þjóð.
Höfundur er stoltur faðir einstaklings með Downs.