Sveitarstjórn GOGG hefur ákveðið að fara í endurskoðuna á aðalskipulagi sveitarfélagsins, sem er fyllsta ástæða til. En sveitarstjórn ber að afloknum kosningum að ákveða hvort ástæða sé til að endurskoða gildandi aðalskipulag.
Það er mikil uppbygging í sveitarfélaginu, ólíkar þarfir íbúa og kröfur. Það hefur væntanlega aldrei verið mikilvægar að marka skýra stefnu þar sem hagsmunir heildarinnar eru hafðir að leiðarljósi.
Í aðalskipulagi birtist stefna sveitarstjórnar um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál, þróun byggðar og byggðamynstur til a.m.k. 12 ára.
Það er mikilvægt að vinna við aðalskipulag sé gerð í góðri samvinnu við íbúa og aðra hagsmunaðila.
Eitt þeirra verkefna sem við þurfum að taka föstum tökum við skipulagsvinnuna eru samgöngumál og umferðaröryggi. Við höfum gefið þeim hlutum allt of litla athygli, þetta er bara eitthvað sem Vegagerðin á að sjá um og svo hafa aðilar einfaldlega komist upp með að tengja vegi inn á stofnvegi þar sem fólki nánast dettur í hug.
Sveitarstjórn fékk fyrir nokkru Pétur H. Jónsson skipulagsfræðing til að skoða stöðuna á Biskupstungnabraut, þ.e. frá Sogsbrú að brúnni yfir Brúará og gera tillögu að því sem betur mætti fara á þeim kafla sem er aðeins 26.6 km langur. Markmið úttektarinnar var að minnka slysahættu og auka öryggi vegfarenda.
Á þessum stutta veg eru 76 vegtengingar, það er mat skýrsluhöfundar að hægt sé að loka 33 af þessum vegtengingum. Eftir standa 43 vegtengingar, sem verður að teljast mjög mikið, en gerðar eru tillögur um breytingar á flestum þeirra þannig að umferðaröryggi aukist og að slysahætta verði minni.
Það er nauðsynlegt að fara sem fyrst að velta fyrir sér þeim fjölmörgu þáttum sem huga þarf að við endurskoðun á aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps.
Meðfylgjandi er úttektin til frekari glöggvunar.