Á fundi sveitarstjórnar þann 6 maí s.l. var tekin samhljóða ákvörðun um að selja gamla leikskólann við Borgarbraut 20.
Það var sérstakt að taka ákvörðun um að selja þessa eign m.a. vegna þess að fyrir lá að það var mikill áhugi á að fá þessa eign leigða til að setja upp rekstur í henni. Sveitarfélagið á að hjálpa fólki sem er að reyna að bjarga sér og hefur sterkan vilja til þess að byggja upp.
Undirritaður stóð í þeirri trú að lóðin væri skilgreind sem verslun og þjónusta, en svo var ekki og var lóðin skráð sem lóð undir leikskóla og því mjög takmarkað hvernig rekstur var hægt að byggja upp í húsinu og langt ferli sem hefði þurft til að breyta því.
Það er einnig mjög jákvætt þegar fólk hefur áhuga á að flytja á Borg og byggja þar upp sitt framtíðarheimili, sveitarstórn á að leggja því lið.
Undirritaður hefur ítrekað horft á þessa lóð sem mjög góða til að byggja upp aðstöðu fyrir eldri borgara í sveitarfélaginu, s.s. til samveru, félagsstarfs og til sérhæfðar búsetu fyrir eldri borgara. Ég ákvað að horfa framhjá því enda er vinna við að uppfæra aðalskipulag sveitarfélagsins að hefjast og þar mun ég beita mér fyrir því að horft verði til þarfa eldri borgara og að gert verði ráð fyrir nauðsynlegri uppbyggingu í þeirra þágu.
Þó það væri ekki bókað, þá sammæltust allir sveitarstjórnarmenn á umræddum fundi um að þeim 20 m.kr sem koma í sveitarsjóð vegna sölu Borgarbrautar 20 verði varið í lóðarframkvæmdir við Kerhólsskóla, til að laga íþróttavöll sem og til lagfæriningar og uppbyggingar á Borgarsvæðinu – það eru góðar fréttir fyrir alla íbúa sveitarfélagsins.