Ég ferðast mikið um Suðurland og ekki hvað síst til Reykjavíkur, það er ótrúlega oft sem aksturslag og hraði strætó vekur athygli mína.
Yfirleitt er ég að aka á milli 90 og 100 km hraða og þráfaldlega gerist það að strætó er að taka fram úr bílum á þeim hraða auk þess sem maður sér glæfralega farið þegar tekið er fram úr bílum úr gagnstæðri átt.
Í kvöld var ég á heimleið frá Reykjavík og í Kömbum var ég á rúmlega 90 km hraða og þá kemur strætó með farþega á ytri akrein og tekur fram úr bíl eftir bíl. Strætó er klárlega á vel á annað hundrað km hraða og hverfur sjónum.
Börn mín sendi ég ekki með strætó og mér finnst óþægilegt að vita af fólki sem mér er kært um í strætó. Þessi staða er ekki boðleg fyrir neinn.
Ég hef gert athugasemd við þennan óábyrga akstur strætó áður og það ég best veit hafa fleiri gert athugasemdir. Mínar athugasemdir voru gerðar síðasta vetur, þegar við þennan glæfralega hraðakstur bættist hálka og slæmt skyggni.
Ekkert breytist og virðist sama hvort strætó er í Uppsveitum eða á leið til Reykjavíkur, sem og hvort það er vetur eða sumar.
Samtök Sunnlenskra sveitarfélaga hafa séð um/borið ábyrgð á almenningssamgöngum á Suðurlandi síðan árið 2012 og strætó verið falið verkefnið.
Ég get ekki séð að sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi eða aðrir íbúar vilji gefa afslátt af öryggi þeirra sem nýta sér almenningssamgöngur.