Háskólanám á Suðurlandi – uppgjöf HÍ?

Nýverið var lögð fram skýrsla til rektors Háskóla Íslands er heitir; „Sóknarfæri í námi í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands“.  Skýrsla þessi fjallar um fyrirkomulag og staðsetningu náms í íþrótta- og heilsufræði sem staðsett er á Laugarvatni.

Nefndin leggur fram 4 tillögur;

  1. Grunnnám í íþrótta- og heilsufræði verði flutt til Reykjavíkur og skipulagt í samstarfi við Háskólann á Akureyri.
  2. Grunnnám í íþrótta- og heilsufræði verði flutt til Reykjavíkur.
  3. Grunnnám í íþrótta- og heilsufræði verði áfram á Laugarvatni en með breyttu sniði.
  4. Grunnnám í íþrótta- og heilsufræði verði lagt niður sem námsgrein við Háskóla Íslands.

Það kemur svo reyndar fram að valkosti 4 sé hafnað, án þess að tiltaka hver hafni eða útskýrt því sé tekin efnisleg afstaða til einnar tillögu!

Það hefur lengi legið ljóst fyrir að staða háskólanáms á Laugarvatni er erfið og ég sakna þess að þess sé ekki getið í skýrslunni að það sé nánast kraftaverk hversu öflugt og metnaðarfullt starf er unnið á Laugarvatni við erfiðar aðstæður.

Að sjálfsögðu á nefndin að leggja fram tillögu nr. 5 sem á að vera vel rökstudd.  Hún á að snúast um hvernig metnaðarfullt og öflugt nám í íþrótta- og heilsufræði verður byggt upp á Laugarvatni.

Það er verið að eyðileggja háskólastarf á Laugarvatni með nákvæmlega sama hætti og starf Landbúnaðarháskólans (Garðyrkjuskólans) að Reykjum hefur verið eyðilegt á undanförnum árum.

Þessi skólar hafa verið árum saman sveltir fjárhagslega, ekki hafa verið teknar ákvarðanir af yfirvöldum menntamála um framtíð þessara merku stofnana og því „drabbast“ þær niður með árunum og svo þegar búið er að veikja þær nægjanlega mikið þá er þeim lokað og eignir í besta falli seldar fyrir starfsemi tengda ferðaþjónustu eins og lagt er til í einni af tillögum nefndarinnar.

Þó svo að upplegg skýrslunar og niðurstöður hennar dragi ekki fram mörg spennandi tækifæri fyrir áframhaldandi háskólanám á Laugarvatni eru mörg atriði dregin fram í skýrslunni sem ég tel að séu tækifæri fyrir eflingu háskólanáms í íþrótta- og heilsufræði.  Má sem dæmi nefna;

  • Í samtölum við starfslið og nemendur kemur fram að æskilegt sé að auka samstarf við aðra háskóla um nám í íþrótta- og heilsufræði.
  • Mikill áhugi er á námi í íþrótta- og heilsufræði meðal ungmenna.
  • Skipulag og samsetning námsins er ekki í samræmi við væntingar nemenda.
  • Nemendur á Laugarvatni eru í 94% tilvika „Mjög eða frekar ánægðir með námið“ meðtalið í Háskóla Íslands (allir) er 87%.
  • Skortur er á húsnæði á Laugarvatni fyrir nemendur.
  • Í samtölum við nemendur á Laugarvatni kom fram að nemendur telja sig vera setta hjá varðandi ýmsa þjónustu Háskóla Íslands og þeim finnst þeir ekki vera hluti af samfélagi skólans né jafn réttháir öðrum nemendum skólans sem eru í Reykjavík.
  • Kennarar lýsa þeirri skoðun sinni að stuðning stjórnenda Menntavísindasviðs skorti og að þeir sýni jafnvel starfseminni að Laugarvatni tómlæti og láti hana afskiptalausa.
  • Starfsmönnum er gefið takmarkað svigrúm til að taka ákvarðanir er varða starfsemina á Laugarvatni.
  • Skipting námsins, þar sem grunnnámið er að Laugarvatni en framhaldsnámið í Reykjavík, veldur því að ekki er sköpuð nægileg samfella í skipulagi námsins og að mati margra viðmælenda stendur þessi skipting í vegi fyrir þróun þess.

  • Það er mat flestra viðmælenda sem skýrsluhöfundar ræddu við að staðsetning námsins að Laugarvatni hafi ákveðna kosti þrátt fyrir að margir telji hana vera einn stærsti þátturinn í því að dregið hefur úr aðsókn í námið. Fyrir utan fallegt umhverfi, ágæta aðstöðu til íþróttaiðkunar (þótt þörf sé á endurbótum) og sterka samheldni nemenda sem búa í heimavist séu þar miklir möguleikar til útivistar, sem séu mikilvægir fyrir námið og myndu tapast við flutning frá staðnum.

  • Ef háskólastarfsemi að Laugarvatni yrði lögð niður væri stoðum kippt undan öðru skólastarfi á staðnum.

  • Sveitarstjórnarmenn lýstu því yfir að ef til kæmi gæti sveitarfélagið í auknum mæli stutt við starfsemi námsbrautar í íþrótta- og heilsufræði að Laugarvatni, m.a. með því stuðla að auknum almenningssamgöngum til Laugarvatns og uppbyggingu svæðisins m.a. með göngustígum og hlaupabrautum.

Það er hætt við því að ef námsbrautin væri í Reykjavík og að óskað hefði verið eftir sambærilegri skýrslu að þá hefði hún snúist um hvernig bæta mætti námið og efla það en að minna hefði verið rætt um að flytja námið milli hverfa!

Uppbyggingu háskólanáms á Suðurlandi þarf að ræða heildstætt enda eitt mikilvægasta verkefni samtímans að ungt fólk geti menntað sig.  Framtíð, þróun og uppbygging háskólanáms er ekki einkamál Háskóla Íslands, Hveragerðis eða Bláskógabyggðar.  Sveitarfélög á Suðurlandi, íbúar og hagsmunaaðilar þurfa að standa saman að uppbyggingu og eflingu háskólanáms á Suðurlandi.

Horfa þarf á tækifæri og þau skortir ekki á Suðurlandi, landsbyggðin þarf ekki smjörklípur sem settar eru upp í formi „háskólasetra“ heldur öflugt háskólanám sem fær þann faglega og fjárhagslega stuðning sem nauðsynlegur er öflugu og metnaðarfullu starfi.

 

Sjá skýrslu til rektors HÍ er varðar framtíð háskólanáms á Laugarvatni;

Skýrsla framtíð háskólanáms á Laugarvatni

 

 

 

 

Comments are closed.