Að búa til óvin og gefa honum stöðu

Grein sem ég ritaði í Morgunblaðið.

______________________________________________________

 

Screen Shot 2017-03-31 at 11.54.48Árið 1957 skutu Rússar á loft fyrsta gervitunglinu, Sputnik.  Gervitungli sem fór yfir Bandaríkin á 90 mínútna fresti.  Bandaríkjamenn gjörsamlega töpuðu sér og það varð heiminum augljóst að sú þjóð sem Bandaríkin hræddust var Rússland.  Það voru Bandaríkin sem gáfu Rússum þá stöðu að vera jafnokar Bandaríkjana með því að upphefja Rússa og ala á hræðslu gagnvart þeim.  Rússar áttu í raun aðeins 60 cm „járnhólk“ sem þeir settu í senditæki sem gaf frá sér hljóð og þeir rétt náðu að koma þessu á sporbaug um jörðu.  Bandaríkjamenn sáu svo um að gefa Rússum stöðu sem stórveldi.

Það er eins og að við séum að gera sömu hluti í dag þegar við upphefjum og ölum á hræðslu við  „samtök“ eins og Ríki íslam.  Ef við horfum á hörmulega atburði s.s. þá sem áttu sér nýverið stað við Westminster í London.  Þá er einstaklingur að fremja morð.  Við því á að bregðast eins og samfélag okkar bregst við morðum.  Ekki á að gefa því vigt og stimpil hryðjuverka og upphefja.  Morð er morð.  Það á nákvæmlega það sama við um önnur morð sem framin hafa verið s.s. í Frakklandi, Belgíu og öðrum löndum síðustu misseri.  Þetta eru morð framin af morðingjum.

Ef morð er framið sem vekur athygli þá kemur skömmu síðar „fréttatilkynning“ frá Ríki íslam um að þeir beri ábyrgð á verknaðnum.  Það skiptir bara ekki nokkru máli frekar en að fréttatilkynningin kæmi frá Kardimommubænum.  Morðingja og vitorðsmenn ber að handsama rétta yfir og fangelsa.

Knattspyrnuhreyfingin áttaði sig á því fyrir nokkrum árum að þú eflir það sem þú veitir athygli.  Áður gerðist það að einstaklingar hlupu inn á fótboltavöll jafnvel án fata þegar það var bein útsending í sjónvarpi og fengu mikla athygli. Það má vel vera að einn og einn aðli hlaupi inn á völl í dag, en það kemur ekki lengur í sjónvarpi og athyglin sem viðkomandi fær er nánast engin og einstaklingurinn er meðhöndlaður á grunni þess brots að hlaupa inn á völlinn.

Það erum við sjálf sem erum að gefa „samtökum“ eins og Ríki íslams, vægi og stöðu fyrst og fremst með eigin orðum, athöfnum og óverðskuldaðri athygli.

Það eru morðingjar sem fremja morð og við eigum ekki að gefa þeim aðra stöðu í samfélagi okkar.

 

 

 

Comments are closed.