Það er ekki hægt að gera þá kröfu á eina fámennestu þjóð Evrópu og þá strjábýlustu að hún haldi úti og fjármagni samgöngukerfi sem rúmlega 2 milljónir ferðamanna nýta.
Það er ekki heldur hægt að halda því fram að við viljum að landsbyggðin geti vaxið og sé góður kostur til búsetu á meðan það er ódýrar að fljúga til London, en innanlands.
Það er jafn mikilvægt að jafna stöðu okkar sem eigum lögheimili á Íslandi til búsetu með aðgerðum eins og það er mikilvægt að ferðamenn dreifist með jafnari hætti um landið.
Við þurfum sem aldrei fyrr að horfa áratugi fram í tímann í samgöngu og byggðamálum. Ákveða hvernig við viljum sjá samgöngur okkar og samfélag árið 2035 eða jafnvel árið 2050.
Á sama tíma og við þurfum að vinna okkur að markmiðum sem byggja á framtíðarsýn þar sem horft er áratugi fram í tímann, þá er umræðan föst í fortíðinni. Vegatollar, hallarekstur af almenningssamgöngum, dýrt innanlandsflug og hver á eða má framkvæma, einkaframtakið eða hið opinbera.
Vissulega þarf að bregðast við þeirri stöðu sem er uppi. En með því að marka okkur ekki stefnu áratugi fram í tímann og að vinna ekki markvisst eftir framtíðarsýn erum við að eyða miklu fé í framkvæmdir og stuðning sem byggir á forsendum fortíðar. Forsendum allt annars samfélags en þess Íslands sem er í dag, svo ekki sé talað um það Ísland sem við viljum sjá eftir áratugi.
Ef við skjótumst fram til ársins 2035, þá verður Ísland markaðssett á grunni náttúru, hreinleika og sjálfbæri af mun meiri krafti en gert er í dag. Fyrirkomulag samgangna á Íslandi verður mikilvægur þáttur í þeirri upplifun og markaðssetningu. Mannfjöldaspá gerir ráð fyrir að við íslendingar verðum þá um 400 þúsund og áætlaður heildar fjöldi farþega um Keflavíkurflugvöll verður um 15 milljónir.
Er einkabíllinn, rútan og innanlandsflugvélin, það sem þarf til að mæta þessum þörfum okkar árið 2035, hvað varðar sjálfbærni, íbúafjölda, ferðamenn, byggðaþróun og umhverfismál?
Verður árið 2035 árið þar sem við tökum í notkun fyrsta áfanga að lestarkerfi til helstu þéttbýlisstaða á Íslandi – rafknúið lestarkerfi á íslenskri orku.
Fólk verður þá væntanlega hætt að fjárfesta í bílum og greiðir þess í stað fyrir notkun á „bílaleigubíl“. Bíl sem það notar þegar það þarf á honum að halda og þar sem það þarf á bílnum að halda (innanlands- sem erlendis). Fólk fer á bílnum í samgöngumiðstöðina (tekur lestina til Akureyrar eða flug til Svíþjóðar og fer aftur upp í „bílinn sinn“sem væntanlega er rafmagnsbíll og keyrir á Mývatn eða til Gautaborgar.
Ef er þetta sú mynd sem við viljum draga upp fyrir framtíðina, þá munu forsendur búsetu á landsbyggðinni breytast mjög mikið. Aðgengi íbúa landsbyggðarinnar að höfuðborginni mun verða annað og betra en við höfum nokkru sinni séð, sem og aðgengi höfuðborgarbúa að landsbyggðinni sem er ekki síður mikilvægt.
Ferðaþjónusta mun breytast í grundvallaratriðum með tilliti til þeirra tækifæra sem við höfum til að dreifa ferðamönnum um landið. Rútufyrirtæki og bílaleigur munu gera út frá þéttbýlisstöðum, en fólk fer milli staða með lestum. Landflutningar, færast af þjóðvegum og yfir í umhverfisvænar lestar. Áherslur þeirra sem reka innanlandsflug breytast í að þjóna í ríkara mæli Grænlandi og Færeyjum og að bjóða upp á útsýnisflug fyrir ferðamenn. Staðbundnir flugmenn munu væntanlega fljúga styttri flugleiðir á minni vélum eftir þörfum hvers svæðis og þá að mestu frá þeim stöðum þar sem lest myndi stoppa.
Það er mikil þróun í gerð gangna neðansjávar t.d. í Noregi og víðar. Það verður eðlileg krafa árið 2035 að það gangi lest néðansjávar milli lands og eyja, lest sem fer aðeins með fólk og vistir. Það verður allavega „gamaldags“ árið 2035 að ætla sér að flytja „bílinn sinn“ með sér hvort heldur þegar maður fer til Vestmannaeyja eða í land.
Vissulega er það mikil framkvæmd og dýr að setja upp lestarkerfi á Íslandi, en fyrirkomulag samgöngumála er stór og mikilvæg ákvörðun sem hefur áhrif á alla þróun okkar samfélags. Það má ekki gleyma því að við erum að setja mjög mikið fé í ómarkvissar, staðbundnar og „bregðast við“ aðgerðir á hverju ári.
Það er fjöldi aðilia sem eru hagsmunaaðilar þess að setja upp heildstætt samgöngukerfi sem er samofið þeirri byggðaþróun sem við viljum sjá. Hagsmunaaðilar þurfa að koma saman og skoða „stóru myndina“ eins og við viljum hana árið 2035 eða jafnvel árið 2050. Skyndilausnir og það að „gera ekki neitt“ er það sem er okkur dýrast.