Karlasamfélagið sem breytist ekki

Grein rituð í Morgunblaðið

________________________________________________________Screen Shot 2017-11-02 at 09.42.21

Það er jafnrétti á Íslandi og við höfum góða samvisku.  Það er kvenna að sækja fram ef þær vilja vera í forystu og ef það eru ekki konur í forystu, þá er það ekki vandamál karla heldur kvenna.  Konur hópa sig saman, byggja upp tengslanet, halda fundi og ráðstefnur sem aðalega konur sækja.  Þetta virðist veruleikinn í dag.

Nýlegt dæmi um ráðstefnu er  „Konur & fjölmiðlar“.  Þar voru örugglega á annað hundrað konur og 4 eða 5 karlmenn.  Einstaklega upplýsandi, fróðleg og vel skipulögð ráðstefna sem átti (þrátt fyrir skort á körlum) jafn mikið erindi við karla og við konur.  Það var augljóst á þeirri tölfræði sem kynnt var að hægt gengur að færa hluti til betri vegar. Fram kom að heilt yfir eru karlar 65 til 70% viðmælenda í fjölmiðlum.  Ekki endilega vegna þess að fjölmiðlar eru viljandi að halla á konur.  Frekar vegna þess að þeir sem „manna stöðurnar“ sem tekið er viðtal við eru karlar.

Stjórnmálin eru í „vandræðum“ þegar kemur að jafnri stöðu karla og kvenna og umræðan er kunn og gamaldags.  Vissulega hafa verið tekin skref í rétta átt, en mikið óskaplega eru þau lítil og hægt þróast til betri vegar.  Það er eins og konur séu minnihlutahópur sem „við“ ætlum að vera góð við með því að setja á kynjakvóta og jafnlaunavottun.

Konur eru ekki minnihlutahópur sem á að þurfa að tryggja jafnan rétt.  Jöfn staða karla og kvenna er ekki barátta fyrir jafnrétti, heldur eðlileg mannréttindi.   Fólk með fötlun og innflytjendur eru dæmi um minnihlutahópa sem þarf að tryggja jafnrétti, ekki konur, þær eru ekki minnihlutahópur.  Það þarf að breyta hugarfari og til þess þarf að setja lög og að ganga á undan með góðu fordæmi.  Það væri tákn um nýja tíma að sjá nýkjörinn þingmann gera að sínu fyrsta verki að leggja fram á alþingi þingsályktunartillögu um að ríkisstjórn Íslands skuli ávallt skipuð til jafns konum og körlum.  Alþingi tæki þannig frumkvæði og myndi senda skýr skilaboð út í samfélagið.  Þetta væri góð leið til að hefja þing á ný og boða breytta tíma.

Auðvitað kemur sá tími og vonandi sem allra fyrst að það verður eðlilegt að við kjósendur getum aðeins valið um 31 konu og 31 karl til setu á alþingi og aðeins standi eftir spurningin um hvernig við veljum 63 þingmanninn.  Það sama þarf að  gerast í sveitarstjórnum, kjósendur eiga að hafa val um ákveðinn fjölda karla og sama fjölda kvenna.

Við val á einstaklingum í stjórnir fyrirtækja, félagasamtaka og sjálfseignastofnanna á hlutur karla og kvenna að vera jafn.  Þar sem fjöldi er oddatala væri valkvætt með oddamann m.t.t. kyns.

Konur eiga ekki að þurfa að „vinna sér inn“ jafnan rétt og jafna stöðu á við karla.  Það eru eðlileg mannréttindi karla og kvenna að réttur okkar og staða sé jöfn.

 

 

Comments are closed.