Það væri áhugavert að vita hug íbúa Ölfuss og Árborgar hvað varðar sameiningu þessara tveggja öflugu sveitarfélaga.
Það hefur verið gaman að fylgjast með þeim metnaði og þeirri miklu uppbyggingu sem átt hefur sérð stað í Ölfusi undanfarin ár og ekki er slakað á heldur frekar bætt í. Á sama tíma hefur íbúafjölgun í Árborg nánast verið án fordæma og mikið fé og kraftur farið í uppbyggingu innviða í Árborg.
Bæði þessi sveitarfélög hafa tekið miklum breytingum á fáum árum og þau eru að takast á við í senn krefjandi og spennandi verkefni.
Ef íbúar þessara sveitarfélaga myndu ákveða að þau skyldu sameinast opnast þeim ótrúleg tækifæri. Hagræðing í rekstri, öflugri rafræn stjórnsýsla, spennandi tækifæri í byggðaþróun. Betur skilgreind atvinnusvæði þar sem sameinað sveitarfélag verður eitt mest spennandi atvinnusvæði landsins hvað varðar staðsetningu, fjölbreytileika og aðgengi.
Árborg og Ölfuss munu með stórbættum veg milli Hveragerðis og Selfoss sem og nýrri brú austan við byggðina á Selfossi þurfa að tryggja að Þorlákshöfn, Eyrarbakki, Stokkseyri og Selfoss verði áfram í “alfaraleið” þeirra sem aka um Suðurland. Ölfuss og Árborg þurfa í senn að sækja fram og að verjast.
Tækifæri okkar sem búum á Suðurlandi eru mikil og gæfa okkar eftir því. Við þurfum þó ávallt að skoða hvað við getum gert betur til að bæta lífsgæði okkar, auka atvinnu og að fara sem best með almannafé.
Er núna góður tími til að kanna hug íbúa Árborgar og Ölfus?