Þriðjudaginn 5. júlí s.l. urðu Sólheimar 92 ára og því ber að fagna. Sólheimar eiga sér einstaka og merka sögu enda þekkir nánast hvert og eitt okkar til staðarins og veit af hinu merka samfélagi sem þar er. Sólheimar eru ekki minna þekktur staður erlendis og auðvelt að færa fyrir því sterk rök að Sólheimar séu jafnvel þekktari erlendis en hérlendis.
Sesselja Sigmundsdóttir stofnandi Sólheima var brautryðjandi, hugsjónarmanneskja og einstök baráttukona. Á 44 ára starfstíma sínum á Sólheimum byggði Sesselja ásamt öflugu stuðnings og samstarfsfólki upp grunn og gildi þess samfélags sem nú fagnar 92 ára afmæli.
Hefðirnar eru margar og grunnur samfélagsins er skýr. Frá fyrsta degi hefur starfssemi Sólheima snúist um að veita þeim skjól sem minna mega sín og sérstaklega að veita fólki með fötlun stuðning í þroskandi og öruggu samfélagi. Samfélagi þar sem lífræn ræktun er stunduð og þar sem allir hafa hlutverk og verk að vinna.
Svo mikilvægur er grunnur samfélagsins að megin atriði þess sem gerir Sólheima að því einstaka samfélagi sem það er er ritað inn í skipulagsskrá sjálfseignarstofnunarinnar.
Meðal þess sem þar er tilgreint er að veita einstaklingum með sérþarfir þjálfun og leiðsögn til að hasla sér völl í samfélaginu og á þeim stað þar sem hverjum og einum má vegna sem best. Í skipulagsskrá sjálfseignarstofnunarinnar er einnig ritað að Sólheimar séu sjálfbært samfélag. Þar segir að atvinnustarfsemi eigi að taka mið af efnahagslegum og félagslegum áhrifum á samfélagið og að vera í sátt við náttúruna og að stunduð sé lífræn ræktun.
Sólheimar hafa um áratuga skeið verið alþjóðleg fyrirmynd sem í senn horft er til og mikil virðing er borin fyrir. Þar vegur hið magnaða og samfellda brautryðjendastarf í lífrænni ræktun þungt auk mannræktar og sjálfbærni og með hvaða hætti þessir þættir hafa verið samofnir.
Lífræn ræktun á Íslandi hefst á Sólheimum. Upphaf lífrænnar ræktunar á Norðurlöndum er á Sólheimum, ábyrgðin er mikil enda sagan og hefðin löng.
Það er þyngra en tárum taki að verða vitni að því að á sama tíma og Sólheimar fagna 92 ára afmæli að þá er tilkynnt að Sólheimar séu að hætta lífrænni ræktun. Ræktun getur ekki talist lífræn nema vottuð sé.
Þetta er ekki skyndiákvörðun hjá sumarstarfsmanni. Þetta er ákvörðun sem fulltrúaráð Sólheima tók á síðasta aðalfundi sínum. Fulltrúaráð þar sem eiga að vera varðmenn samfélagsins og þeir aðilar sem eiga að tryggja að farið sé að skipulagsskrá sjálfseignarstofnunarinnar.
Það fylgir því ábyrgð að ganga í fótsporum brautryðjanda og allra þeirra sem á undan hafa gengið í tæpa öld og markað leiðina. Þó það komi dagur eða tveir sem kunna að taka aðeins á, að þá er staðið á öxlum þeirra sem vinnuna hafa unnið. Meðvindur og tækifæri dagsins í dag eru meiri en þeir sem mörkuðu leiðina gátu látið sig dreyma um.
Samfelld saga lífrænnar ræktunnar í 92 ár á Sólheimum er einstök í veröldinni. Sólheimar hafa verið fyrirmynd hérlendis sem alþjóðlega á sviði lífrænnar ræktunnar og umhverfismála.
Ef verkefnin sem nú þarf að sinna eru of flókin og krefjandi til að farið sé eftir grunn markmiðum og 92 ár samfelldri vinnu, þá þarf að bregðast við. Markmið Sólheima hafa frá fyrsta degi verið skýr og leiðarljós í tæpa öld.
Það er ekki valkvætt þeim sem um halda í skamman tíma að brjóta þessa grunnstoð samfélagsins.
Guðmundur Ármann Pétursson
Höfundur er;
Fyrrverandi framkvæmdastjóri Sólheima
íbúi og starfsmaður til 30 ára