Grein rituð í Morgunblaðið vegna þeirrar óásættanlegu stöðu sem var uppi og hefur árum saman verið uppi þegar kemur að námi fatlaðs fólks í framhaldsskóla.
———————————————————————
Fram kom í frétt í Morgunblaðinu nýlega að Dagbjarti Sigurði Ólafssyni nýútskrifuðum nemanda úr 10 bekk í Klettaskóla sé neitað um skólavist í framhaldsskóla. Í sömu frétt kemur einnig fram að eftir bréfaskipti og samskipti móður Dagbjarts við Menntamálstofnun hafi komið í ljós að Dagbjarti var hafnað um skólavist í þeim tveimur framhaldsskólum sem hann sótt um skólavist í. Að málið sé í vinnslu og að beðið sé svara frá menntamálaráðuneyti varðandi fjármagn.
Dagbjartur, foreldrar hans og fjölskylda ganga væntanlega inn í sumarið áhyggjufull, óörugg, döpur og með fangið fullt af mikilvægum spurningum og engin svör varðandi framhaldsskólanám nú í haust. Eitthvað sem við ”hin” þurfum ekki að hafa áhyggjur af.
Það sorglega er að þetta er ekki í fyrsta og að óbreyttu ekki í síðasta skiptið sem þessi staða er uppi. Þetta er búið að vera staðan ár eftir ár og einstaklingarnir eru margir sem sætt hafa þessari útskúfun.
Grundvallaratriðið er að Dagbjartur á lögum samkvæmt rétt á því að sækja framhaldsskóla eins og jafnaldrar hans.
Það er hvergi í lögum heimild til þess að “kostnaðarmeta” einstakling sem sótt hefur um skólavist. Það er enn síður ekki heimild til þess að „kostnaðarmeta“ suma nemendur og aðra ekki. Hvað þá að láta það hafa áhrif á og/eða ráða því hvort að viðkomandi nemandi sé tekinn inn í það nám sem hann sækir um.
Það er óboðlegt og siðferðislega rangt að fatlað fólk sé tekið út fyrir sviga og því stillt upp með þeim hætti að það þurfi að “sér-fjármagna” lögbundinn rétt og þar til að það sé afgreitt eða ekki að þá njóti fatlaður einstaklingur minni og/eða ekki þess réttar sem allir aðrir njóta og lög kveða á um.
Það er sem fatlað fólk eigi ekki í raun að falla undir sömu lög og að hafa sama rétt til náms og aðrir íbúar þessa lands. Ef það er veruleikinn að þá er eðlilegast að það komi fram í lögum að fötluðu fólki sé ekki ætlað framhaldsnám.
Breytinga er þörf og það þarf ekki meira til en að menntamálaráðherra árétti það með afgerandi hætti að lögum samkvæmt eigi allir jafnan rétt til náms í framhaldsskóla og að fara beri að lögum þegar kemur að innritun í framhaldsskóla.
Að ráðherra með sama hætti árétti að telji skóli sig hafa þörf fyrir aukið fjármagn s.s. vegna fjölda nemenda, stuðningsþarfar, viðhalds húsnæðis eða vegna annara verkefna að þá eigi að eiga þá beiðni beint við fjárveitingavaldið, en ekki að beita fyrir sig fötluðu fólki með útilokun og aðgreiningu þess eins og gert er.
Bjóðum fatlað fólk raunverulega velkomið í nám á öllum skólastigum í inngildandi námsumhverfi þar sem við fáum öll tækifæri til að þroskast, læra og að njóta samveru hvert við annað.
Höfundur er foreldri.