Spilavíti

Ætli það sé tilviljun að þegar atvinnuleysi er í hámarki og þörf er á auknum tekjum í þjóðfélaginu að þá komi aðilar fram og „viðri hugmyndina“ að opna spilavíti á Íslandi.

Rökfærslunni er beitt á undarlegan hátt, þetta er í raun greiði við spilafíkla með því að fá þessa spilamennsku upp á yfirborðið þá fást af henni tekjur, eftirlit verður betra, svo ekki sé talað um hversu auðveldar verður að nálgast spilafíkla og veita þeim meðferð.

Það er nú nokkuð athyglisvert að velta fyrir sér hvernig á að framkvæma það að nálgast/finna spilafíkla og veita þeim meðferð, en þar sem þessir ágætu aðilar hafa væntanlega fundið góða lausn á því, þá hljóta menn að vera tilbúnir að bjóða upp á sambærilega þjónustu í öllum Vínbúðum landsins, þ.e. að finna alkahólista og veita þeim meðferð.

Það er til mikils að vinna fyrir hið opinbera að koma fjárhættuspili upp á yfirborðið, hægt verður að hafa strangt eftirlit, afla skatttekna og skapa störf eru helstu rökin auk þess sem þetta sé hvort sem er að mestu fyrir erlenda ferðamenn.

Öll þau rök sem notuð eru til að styðja við málstað þeirra sem vilja spilavíti eru nákvæmlega þau sömu og færð eru fyrir því að rétt sé að lögleiða vændi og eiturlyf.  Ég er ekki að ætla þeim sem styðja við rekstur á spilavíti á Íslandi að þeir ætli sér að leyfa með sömu rökum vændi og eiturlyf, en gallinn er sá að ef menn telja þessi sömu rök ásættanleg fyrir spilavíti, þá hljóta þau að teljast það þegar kemur að vændi og eiturlyfjum.

Má ekki vænta þess að næst verði stigið fram og sagt að rétt sé að lögleiða vændi, enda stundi fólk kynlíf og hafi keypt vændi lengi, betra sé að færa vændi upp á yfirborðið og hafa með því eftirlit, að hluti tekna renni í ríkissjóð og svo væri þetta væri svo miklu betra fyrir vændiskonur því þær væru öruggari og fengju stuðning.  Svo má nú einnig skella því fram að þetta væri aðallega hugsað fyrir erlenda ferðamenn, þó svo íslendingum væri ekki bannað að nýta sér þessa „þjónustu“.

Fyrir ekki svo löngu var boðið upp á „Dirty weekend“ í Reykjavík, nú þegar byggja á upp nýtt Ísland og leitast er við að endurvekja traust á Íslandi og íslendingum, á þá að bjóða upp á „Dirty weekend with cash“.

Comments are closed.