Málefni fatlaðra og fjármál sveitarfélaga

 

Eftir rétt rúma tvo mánuði munu málefni fatlaðra því miður færast frá ríki til sveitarfélaga.  Fjárhagslegt öryggi fatlaðra einstaklinga, þ.e. aðgangur að þjónustu  ætti að skipta mestu máli við þessa yfirfærslu en gerir það ekki.  Það er umhugsunarvert að sveitarstjórnarmaður missir kjörgengi í sveitarstjórn  vegna sviptingar fjárforræðis, en þegar kemur að sveitarfélaginu sjálfu þá eru aðrar reglur.  Þar ganga sveitarfélög fram og krefjast þess að taka yfir ný verkefni og að fá til þess aukið fjármagn á sama tíma og þau eru í raun gjaldþrota.

Það er mjög mörgu ósvarað svo stuttu fyrir mögulega yfirfærslu

–        Það virðist liggja fyrir að sveitarfélög fái tekjur / greiðslur úr Jöfnunarsjóði eftir fjölda þeirra fötluðu einstaklinga sem eru í sveitarfélaginu.  Verður staðan þannig að sveitarfélög „græða á því“ að takmarka þjónustu við fatlaða og/eða sleppa því að veita þjónustuna, þ.e. sveitarfélögin fá greitt fyrir einstaklingana en veita ekki þjónustuna?   Ef sveitarfélögin fá ekki þessa greiðslu hvað verður þá um féð?

–        Það liggur fyrir að töluverður fjöldi fatlaðra einstaklinga er ekki að fá þjónustu í dag, það mun vart breytast við það eitt að færa málaflokkinn yfir til sveitarfélaga.

–        Afhverju er að verða búið að gera þjónustumat á „öllum“ fötluðum einstaklingum á Íslandi, en ekki er byrjað að leggja mat á hvað það kostar að veita þá þjónustu sem matið segir til um?  Þrátt fyrir það er búið að ákveða hámarksupphæð sem sveitarfélögin fá við yfirfærsluna.  Ætla sveitarfélögin að greiða mismuninn enda liggur það fyrir að það er verulegt vanmat  á þjónustuþyngd í kerfinu í dag og fjöldi fólks á biðlista eftir þjónustu?

–        Hver mun hafa eftirlit með því að fé sem ætlað er fötluðum renni í raun til fatlaðra, sum sveitarfélög hafa t.d. byrjað á því að tilkynna um að starfshlutfall í yfirstjórn sveitarfélagsins verði aukið hvort sem þau störf tengjast málefnum fatlaðra eða ekki og verður greitt fyrir með fé sem veita á til fatlaðra.

–        Hvaða tryggingu hafa fatlaðir einstaklingar fyrir því að veitt verði lögbundin þjónusta  sérstaklega þar sem fyrir liggur að ekki verður nein eftirlitsstofnun/ eftirlitsaðili við yfirfærsluna?

Málefni fatlaðra eiga aðeins að snúast um fatlaða, allt annað er til stuðnings.  Þessi mögulega yfirfærsla er farin að snúast um allt annað en fatlaða.  Það er athyglisvert að starfsfólk í málaflokknum stendur upp og ver rétt sinn og gerir það vel, fulltrúar sveitarfélaga berjast fyrir þessari breytingu af miklum krafti, sem er í reynd óskiljanlegt, en það heyrist ekkert frá hagsmunasamtökum fatlaðra!

Comments are closed.