Í Evrópu svo ekki sé nú talað um Bandaríkin þá er á það lögð höfuðáhersla að bjóða upp á fjölbreytta þjónustu í búsetu jafnt sem atvinnumálum fyrir fatlað fólk. Í þessum löndum er það ekki venja að ríki og sveitarfélög séu rekstraraðilar að þessari þjónustu.
Ríki og sveitarfélög eru greiðendur og eftirlitsaðilar, en sjaldnast rekstraraðilar. Margar ástæður eru fyrir þessu fyrirkomulagi en eitt virðast öll ríki og sveitarfélög eiga sammerkt en það er að þau eru ekki brautryðjendur nýrra hugmynda og nýsköpunar.
Nýsköpun og nýjar hugmyndir koma yfirleitt frá sjálfstæðum rekstraraðilum, hagsmunasamtökum og öðrum brautryðjendum. Rekstur ríkis og sveitarfélaga er ekki nauðsynlega slæmur en hann skortir það þor og þann drifkraft sem kemur frá sjálfstæðum aðilum og hagsmunasamtökum. Það er ekki séríslensk staðreynd það er alþjóðleg vitneskja.
Með flutningi málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga þá er verið að tryggja það rækileg að drifkraftur og nýsköpun í málaflokki fatlaðra mun eiga mjög undir högg að sækja. Reyndar svo mikið að þeir fáu aðilar sem starfað hafa sjálfstætt munu þurfa að eiga framtíð sína undir duttlungum sveitarfélags. Sveitarfélags sem er sjálft í sama rekstri og í samkeppni við hinn sjálfstæða rekstraraðila.
Með þessu fyrirkomulagi er það einnig nánast tryggt að það verður ógjörningur fyrir nýja aðila að hasla sér völl og stuðla þannig enn frekar að framþróun í málefnum fatlaðra.
Hvað gengur mönnum eiginlega til?