
Það er fátt dýrmætara en að sjá einstakling vaxa, læra og þroskast — að fá tækifæri til að verða besta útgáfan af sjálfum sér. Þeir sem sóttu málþingið Hvað um okkur?, sem haldið var 11. apríl síðastliðinn af einstaklingum með þroskahömlun í diplómanámi við Háskóla Íslands, í samstarfi við Landssamtökin Þroskahjálp fengu tækifæri til að hlusta á einstaklinga sem höfðu fengið tækifæri til að vera besta útgáfan af sjálfum sér.
Þetta var ekki bara málþing. Þetta voru tímamót, það voru einstaklingar með þroskahömlun sem skipulögðu, stjórnuðu og leiddu umræðuna. Spurðu spurninga, sögðu sögur, deildu innsýn – og létu rödd sína heyrast. Við hin fengum að vera í aftursætinu og að hlusta og það var mikið að hlusta á.
Salurinn var yfirfullur. Stemningin góð. Framsögurnar og samtölin fagleg, áhrifamikil og öðruvísi. En það vantaði marga þá sem helst hefðu átt að vera á staðnum: þingmenn, ráðherrar, forystufólk í menntamálum og fjölmiðlafólk. Þeir sem hafa völd til að breyta og skyldu til að hlusta. Spurningin sem kom upp í hugann var; viljum við raunverulega hlusta á allar raddir eða teljum við enn að sumar raddir skipti minna máli?
Á ári hverju útskrifast 70–80 einstaklingar með þroskahömlun af starfsbrautum framhaldsskóla. Iðn-, list og háskólanám er þessum einstaklingum nánast lokað. Aðeins átta einstaklingar eru teknir inn í starfstengt diplómanám við HÍ. Lögin eru skýr og tryggja jafnan rétt, en við taka þykkir veggir þekkingarleysis og fordóma.
Inn á þetta magnaða málþing hljómuðu hátt skilaboð Háskóla Íslands. Engir nýir nemendur verða teknir inn í diplómanámið næsta skólaár – til að spara. Ákvörðun hefur verið tekin um að taka inn nemendur eingöngu annað hvert ár. Þetta er eina menntaleiðin innan Háskóla Íslands sem stendur einstaklingum með þroskahömlun til boða. Það eru átta einstaklingar teknir inn í námið á ári. Samt eru það þeir sem kerfið ákveður að skera niður. Þetta er til skammar og ekki boðlegt að koma fram með þessum hætti.
Þegar einstaklingur með þroskahömlun hefur nám í framhaldsskóla að þá hefur hann „eitt val“, val um starfsbraut og getur lítið lært það sem hugur hans stendur til. Þegar kemur að háskóla, iðn- eða listnámi er nánast vonlaust að komast inn í nám. Hvorki nám sem er ákveðið fyrir þig (aðgreinandi nám), né nám sem þú sem einstaklingur hefur áhuga á að sækja.
Það er nauðsynlegt að brjóta niður þessa þykku glerveggi og að gera betur. Eitt mikilvægasta skrefið sem þarf að taka er að hlusta á raddir einstaklinga með þroskahömlun og sú rödd var hávær, skýr og full af reisn á málþinginu.
Rödd einstaklinga með þroskahömlun á ekki bara rétt á að heyrast. Hún á rétt á að móta, að taka ákvarðanir og að leiða. Það sem við heyrðum á málþinginu ætti að kalla á viðbrögð frá ráðherrum mennta- og háskólamála. Þeir verða að hlusta og tryggja að menntakerfið okkar sé fyrir alla, líka þau sem eru og þau sem hafa hingað til hafa verið útilokuð.
En það er ekki nóg ein námsleið — eins og diplómanámið — sé í boði. Eins og kom fram á málþinginu að það að bjóða eitt sérstakt „nám fyrir fatlaða“ er ekki nóg og ekki rétt. Við verðum að tryggja raunverulegt aðgengi og val að fjölbreyttu námi — eins og lög og alþjóðlegir samningar gera ráð fyrir.
Fólk með þroskahömlun á rétt á menntun á öllum skólastigum, með viðeigandi aðstoð og aðlögun. Diplómanám getur verið góður kostur fyrir suma, en það má aldrei vera eini kosturinn.
Við verðum að spyrja okkur:
- Hvað hindrar fleiri aðgengilegar námsleiðir?
- Hvers vegna eru iðn-, list- og háskólar ekki virkir þátttakendur í að opna dyr sínar?
- Hver ber ábyrgð á því að rétturinn til náms sé í raun virtur og að þykkir glerveggir þekkingarleysi og fordóma séu brotnir niður?
Menntun snýst ekki bara um að „bjóða eitthvað“ – hún snýst um að skapa rými þar sem allir geta valið, vaxið og tekið þátt.